Upplýsingar um námsstöðu í Mentor
handbok-fyrir-adstandendur_mars2022.pdf (infomentor.is)
Í Hagaskóla er upplýsingum um námsstöðu nemenda miðlað í gegnum hæfnikort nemenda í Mentor. Það er mikilvægt að nemendur og foreldrar séu meðvitaðir um námsstöðu og viti hvaða hæfni er stefnt að á skólaárinu. Í meðfylgjandi myndbandi er því lýst hvernig foreldrar og nemendur geta séð hvernig nemendum gengur að tileinka sér þá hæfni sem til er ætlast.
Hæfnimiðað nám – grundvallaratriði
Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er tilgangur námsmats að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess og í námsmati á að leggja mat á hæfni nemenda út frá hæfniviðmiðum sem skilgreind eru í skólanámskrá. (54-55)
Í upphafi hvers skólaárs eiga þau hæfniviðmið sem liggja til grundvallar náminu að vera skráð í Mentor. Nemendur vinna svo að þessari hæfni og hún er metin jafnt og þétt. Niðurstöður þess mats eru svo skráðar í kerfið og birtast á hæfnikorti nemanda þar. Nemendur og foreldrar geta svo fylgst með þróun hæfnikortsins í Mentor.
- Hæfniviðmið eru skilgreind fyrir skólaárið
- Verkefnavinna, vinna í tímum, kannanir og próf eru notuð til þess að meta hvernig nemanda gengur að sýna hæfnina.
- Mat á hæfniviðmiðum er skráð í Mentor með fjórum táknum og hæfnikort verður til.
- Hæfnikort verður grunnur að einkunn í námsgrein.
Hæfnieinkunn að vori
Hæfnikort er grundvöllur þess að gefa nemanda hæfnieinkunn í bókstöfum. Þegar skólaárinu lýkur fer kennari yfir hæfnikortið og gefur nemanda einkunn út frá því hvernig honum hefur gengið að sýna hæfnina. Einkunnirnar eiga að endurspegla hæfnikortið og eru samantekt á því. Merking bókstafanna er sem hér segir:
- A – nemandi hefur sýnt framúrskarandi hæfni í langflestum viðmiðum.
- B+ – nemandi hefur náð öllum hæfniviðmiðum og sýnt framúrskarandi hæfni í mörgum þeirra.
- B – Nemandi hefur sýnt viðeigandi hæfni í námsgreininni og náð langflestum hæfniviðmiðum.
- C+ – Nemandi þarfnast þjálfunar á nokkrum mikilvægum hæfniviðmiðum í greininni.
- C – Nemandi þarfnast þjálfunar á flestum hæfniðviðmiðum í greininni.
- D – Nemandi hefur ekki náð nauðsynlegum hæfniviðmiðum í greininni.
Það er síðan skilgreint nánar innan hverrar greinar hvar mörkin milli þessara einkunna liggja.
Mikilvægt að hafa í huga
Það gefur auga leið að hæfnimiðað nám og námsmat er ólíkt því námsmati sem flestir foreldrar ólust upp við í sinni skólagöngu. Aðaláherslan í dag er á námsframvindu, leiðsögn og meðvitund nemenda um það hvaða hæfni á að ná. Hér eru nokkur atriði sem oft koma upp í umræðu við foreldra um námsmat
- Til þess að átta sig á námslegri stöðu nemenda þurfa foreldrar nú að skoða hæfnikortið í stað hefðbundinna vitnisburðarblaða sem afhent voru áður.
- Lokaeinkunn vetrarins er ekki meðaltal einkunna sem safnast saman yfir veturinn, heldur endurspeglar hún þá hæfni sem nemandi hefur sýnt yfir veturinn.
- Sá bókstafur sem lýsir því að hæfni hafi verið náð með fullnægjandi hætti er B.
- B+ og A eru einkunnir sem lýsa því þegar nemandi sýnir framúrskarandi hæfni í flestum eða öllum hæfniviðmiðum
- Þegar kemur að innritun í framhaldsskóla gilda ólíkar reglur milli skóla. Nánari upplýsingar um nám að loknum grunnskóla má finna með því að smella hér.
Aðrar aðferðir, sami grundvöllur
Ef spurningar vakna sem tengjast því hvernig á að lesa úr hæfnikorti nemenda er hægt að senda póst á tryggvi.mar.gunnarsson@rvkskolar.is. Fyrirspurnum um matsviðmið og framkvæmd námsmats er betra að senda á viðkomandi kennara.