Eineltisáætlun
Í Hagaskóla er einelti ekki liðið og unnið er að því að fræða alla aðila skólasamfélagsins um birtingarmyndir og afleiðingar eineltis, ásamt öflugu forvarnarstarfi.
Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við skólann ef grunur leikur á að einelti eigi sér stað eða ef barni líður illa í skólanum.
Hagaskóli er þátttakandi í Olweusar verkefninu gegn einelti. Áætlunin byggir á viðamiklum kenningum og áralöngum rannsóknum Dan Olweusar sem er prófessor og sálfræðingur við háskólann í Bergen. Innleiðing áætlunarinnar í Hagaskóla hófst haustið 2004 og hefur henni verið fylgt síðan. Frá því í febrúar 2005 hefur árlega verið lögð fyrir nemendur skólans könnun með það að markmiði að greina líðan nemenda og mögulegt einelti. Niðurstöðurnar gefa síðan tilefni til þess að bregðast við því sem betur má fara í skólasamfélaginu. Olweusar áætlunin byggist á ákveðnum grundvallaratriðum sem miða að því að skapa jákvætt skólaumhverfi og góðan skólabrag sem m.a. einkennist af:
- Hlýlegum, jákvæðum áhuga og alúð hinna fullorðnu
- Ákveðnum römmum vegna óviðunandi atferlis
- Ákveðnum viðurlögum við óviðunandi atferli.
- Stefnuföst beiting neikvæðra afleiðinga (viðurlaga) sem hvorki eru líkamlegar né óvinveittar, brjóti nemandi gegn þeim reglum sem ákveðnar hafa verið
- Því að hinir fullorðnu í skóla og á heimili komi fram af myndugleik
Helstu markmið áætlunarinnar eru að draga úr einelti og annarri andfélagslegri hegðun ásamt því að vekja alla í skólasamfélaginu til vitundar um hvað felst í hugtakinu einelti og sameinast um að hafna því. Til að mögulegt sé að veita viðeigandi fræðslu og eftirfylgni eru ýmsar leiðir farnar, þar á meðal:
- Árlega eru lagðar fyrir kannanir á líðan nemenda og stöðu eineltis í skólanum og niðurstöður kynntar fyrir starfsfólki, nemendum og foreldrum.
- Allir starfsmenn skólans taka þátt í umræðuhópum sem hafa það að markmiði að fræða starfsfólk um hvað felst í einelti og undirbúa það undir að vinna að markvissum aðgerðum gegn því.
- Nemendur fá fræðslu um hvað felst í hugtakinu einelti, eðli þess og birtingarform ásamt því að rætt er um afleiðingar eineltis fyrir gerendur, þolendur og aðra í skólasamfélaginu.
- Lögð er áhersla á að eftirlitskerfið innan skólans sé virkt, að nemendur treysti sér að leita til fullorðinna innan skólans og að foreldrar hafi samband ef grunur leikur á að einelti eigi sér stað.
- Lögð er áhersla á að nemendur skólans séu meðvitaðir um reglur skólans gegn einelti og að þeir virði þær í orði og verki.
- Bekkjarfundir eru haldnir reglulega með það að markmiði að styrkja bekkjarbraginn og efla samkennd meðal bekkjarfélaga.
- Þegar eineltismál koma upp er brugðist við þeim samkvæmt aðgerðaráætlun Olweusar.
VIÐBRAGÐSÁÆTLUN GEGN EINELTI:
Ef grunur um einelti kviknar eða ef foreldri tilkynnir um einelti fer eftirfarandi viðbragðsáætlun í gang:
- Allir starfsmenn skólans leggja sig fram við að fylgjast með samskiptum og líðan nemenda í skólanum.
- Starfsmenn leggja sig fram við að greina slæm samskipti og bregðast við þeim þegar þau koma upp.
- Öllum málum þar sem grunur leikur á að einelti eigi sér stað er vísað til umsjónarkennara sem kannar málið og bregst við því á viðeigandi hátt m.a. með því að afla sér frekari upplýsinga og taka einstaklingsviðtöl ásamt öðrum starfmanni skólans við hlutaðeigandi aðila.
- Umsjónarkennari gefur öllum starfsmönnum upplýsingar um mál sem þarf að fylgjast með, til að tryggja sem best öryggi barnanna og að samskipti séu í lagi.
- Unnið er með alvarleg eineltismál í samstarfi við nemendaþjónustu og stjórnendur skólans.
Frekari upplýsingar um Olweusar verkefnið gegn einelti má finna á vefslóðinni: http://olweus.is/