Skip to content

Markmið

Meginmarkmið stefnu Reykjavíkurborgar er að stuðla að sem bestri þjónustu við nemendur með sérþarfir í grunnskólum borgarinnar, uppfylla markmið laga og Aðalnámskrár um kennslu í samræmi við eðli og þarfir nemenda og að nýta fjármagn til sérkennslu sem best.

Þeir sem ekki fylgja námsframvindu sem getur talist eðlileg miðað við aldur fá meiri stuðning og námsaðstoð eftir þörfum. Við úthlutun sérkennslu- og stuðningsfulltrúatímum liggja greiningar, skimanir, námsmat og beiðnir umsjónarkennara og foreldra með rökstuðningi til grundvallar. Sjá nánar bækling um framkvæmd sérkennslu í almennum grunnskólum.

Framkvæmd

Eins og í öðrum grunnskólum í Reykjavík er fjöldi sérkennslustunda miðaður við nemendafjölda. Deildarstjóri og sérkennarar ásamt bekkjarkennurum yfirfara umsóknir um sérkennslu að vori og leggja mat á þörf út frá þeim og niðurstöðum prófa og athugunum.

Þörf fyrir aðstoð stuðningsfulltrúa er metin út frá greiningum sem fylgja nemendum og upplýsingum frá leikskólum en þeir eru einkum til stuðnings fötluðum nemendum og nemendum með miklar sérkennsluþarfir.

Í námsveri Hagaskóla stendur fjölbreytt stoðþjónusta nemendum til boða. Reynt er að sjá til þess að hver og einn nemandi fái þjónustu við hæfi og lögð er áhersla á einstaklingsmiðað nám. Einnig er lögð áhersla á sveigjanlega kennsluhætti og fjölbreytt námsmat. Sérstök áhersla er lögð á námstækni og eru nemendur eru hvattir til að rækta sterkar hliðar sínar til að styrkja sjálfsmynd sína jákvæðan hátt. Lögð er áhersla á að framkoma við nemendur einkennist af jákvæðu viðmóti og virðingu.

Námsverkennsla er fyrst og fremst í boði í íslensku og stærðfræði, en þar er þó einnig stuðningur við heimanám og sérstök verkefni í öðrum greinum  í boði eins og hægt er.

Í tengslum við þróun á teymiskennslu í 8. bekk er meiri stuðningur inni í bekkjum en í öðrum árgöngum. Þar eru tveir kennarar í fjölda kennslustunda og sinna þeir þörfum nemenda í sameiningu.