Skip to content

Skólaslit 2022

192 nemendur útskrifuðust úr Hagaskóla við hátíðlega athöfn í Háskólabíó þann 8. júní. sl. Athöfnin hófst að venju á að allir sungu saman skólasönginn, texta efir Sturlu Snæbjörnsson fyrrverandi kennara við skólann við lag Atla Heimis Sveinssonar, Snert hörpu mína himinborna dís.

Eftir að S. Ingibjörg Jósefsdóttir skólastjóri hafði farið yfir skólastarf vetrarins var komið að fyrsta tónlistaratriðinu. Það var flutt af Emblu Tjörvadóttur sem söng lagið Wicked game við frábærar undirtektir.

Þá var komið að því að afhenda peningana sem söfnuðust á góðgerðardeginum GOTT MÁL – unglingar fyrir unglinga í Hagaskóla sem haldinn var í október 2021. Svanfríður Karlsdóttir fyrir hönd Bergsins Headspace og Ólafur Halldórsson fyrir hönd Bjartrar sýnar tóku á móti  890.920 krónum  hvort um sig.

Eftir að Valur Einar Georgsson hafði leikið á rafmagnsgítar hið gullfallega lag, The House of the rising sun, var komið að sjálfri útskriftinni. Hún var brotin upp með frábæru tónlistaratriði Jökuls Jónssonar og Úlfhildar Stefaníu Jónsdóttur en þau fluttu lagið, Þar sem allt grær, úr litlu Hryllingsbúðinni.

Eftir að Óðinn Bjarkason hafði tekið við bókaverðlaunum frá skólanum fyrir framúrskarandi námsárangur flutti Egill Michael Batson tvö vel frumsamin ljóð.

Næst stigu á svið tveir nemendur, Diljá Kristófersdóttir og Daði Víðisson sem héldu ræður fyrir hönd útskriftarnema og gerðu það af stakri snilld.

Síðasta tónlistaratriðið var glæsilegur tónlistarflutningur Þórs Óla Bjarnasonar “Prelúdía í Cís moll (Opus 3, nr. 2)” eftir Sergei Rachmaninoff.

Alda Gísladóttir og Gunnhildur Ólafsdóttir voru kvaddar eftir áratugalöng störf við skólann.

Viðstaddir heiðruðu minningu látinnar skólasystur, Emblu Arnars Katrínardóttur með því að rísa úr sætum.

Að lokinni kveðjuræðu skólastjóra var 64. viðburðarríku skólaári Hagaskóla slitið.