Skip to content

Pizzuveisla eftir að nemendur leystu allar þrautir á Degi stærðfræðinnar

Dagur stærðfæðinnar var föstudagurinn 4. febrúar. Þann dag leystu nemendur í Hagaskóla stærðfræðiverkefni í sameiningu. Áður höfðu nemendur valið máltíð sem verðlaun fyrir að leysa öll verkefnin. Skemmst er frá því að segja að pizza var máltíðin sem mikill meirihluti nemenda valdi og því er pizzuveisla í Hagaskóla í dag, á síðasta kennsludegi fyrir vetrarfrí. 

Stærðfræðiverkefnið var þannig að allir bekkir í skólanum þurftu að leysa 30 stærðfræðiþrautir í sameiningu á klukkutíma til að vinna sér inn máltíðina. Um var að ræða gagnvirkt verkefni sem allir nemendur fengu úthlutað í gegnum Google Classroom og gátu fylgst með gengi allra bekkja í rauntíma. Þegar allir bekkir höfðu leyst 50% verkefnanna rétt fengu nemendur að vita hvaða máltíð varð fyrir valinu og þegar allir bekkir höfðu leyst allar þrautirnar fengu nemendur upplýsingar um að máltíðin yrði síðasta kennsludag fyrir vetrarfrí. 

Verkefnið er hluti af verkefninu Gróska en höfundar þess eru Stein Olac Romslo og Ómar Örn Magnússon kennarar í Hagaskóla. Gróska í Hagaskóla er hluti af verkefni Reykjavíkurborgar sem sett var af stað til að hraða innleiðingu á upplýsingatækni í grunnskólum borgarinnar. Í fyrsta hluta verkefnisins eru það nemendur í unglingadeildum sem fá námstæki að láni og hafa allir nemendur Hagaskóla þegar fengið Chromebækur sem auðveldar til muna allt uppbrot tengt upplýsingartækni eins og stærðfræðiverkefnið er gott dæmi um.

Nemendur í 10. bekk njóta uppskerunnar.

Staðan eftir 10 mínútur

Staðan eftir 45 mínútur

Staðan eftir rétt rúmlega 60 mínútur