Skip to content

Nemendum Hagaskóla standa til boða fjölmargar námsleiðir að lokinni útskrift. Á höfuðborgarsvæðinu eru 15 skólar sem bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi. Þeir eru allir ólíkir og mikilvægt er fyrir nemendur að kynna sér sérstöðu þeirra og skólabrag vel. Upplýsingavefir skólanna eru góðir og að auki bjóða þeir upp á skólakynningar áður en forinnritun hefst. Við hvetjum alla okkar nemendur til þess að nýta sér þessar kynningar og skoða úrvalið vel.

 

Reglur um lágmarkseinkunnir

Allir þessir skólar setja sér reglur um lágmarkseinkunnir sem nemendur þurfa til þess að komast inn á námsbrautir og eru þær langoftast aðgengilegar á vefsíðum skólanna. Mikilvægt er að nemendur kynni sér vel þessar reglur í þeim skólum sem á að sækja um.

Nær allir skólar horfa fyrst og fremst á einkunnir í íslensku, stærðfræði og ensku en aðrar námsgreinar geta svo bæst við. Í MR og Versló hafa þessar greinar tvöfalt vægi á við aðrar greinar.

 

Innritunarferlið

Innritun í framhaldsskóla fer fram í gegnum vef Menntamálastofnunar. Nemendur og foreldrar fá sent bréf með leiðbeiningum um umsóknarferlið. Til að sækja um þurfa nemendur að hafa veflykil sem þeir fá afhentan í skólanum.

Við innritun sækja nemendur um tvo skóla, fyrsta val er skólinn sem nemandi hefur mestan áhuga á, annað val er til vara. Nemendur velja svo tvær námsbrautir í hvorum skóla fyrir sig. Mikilvægt er að þekkja vel inntökuskilyrði skólanna, athugið að inntökuskilyrði geta verið ólík eftir námsbrautum, ásamt því að þekkja eigin stöðu í námi. Upplýsingar um inntökuskilyrði koma fram á vefsíðum skólanna.

Nánari upplýsingar um innritunarferlið má finna á vefsíðu menntamálastofnunar https://mms.is/innritun-i-framhaldsskola

 

Upplýsingar um framhaldsskóla og innritun

 

Dagsetningar 2022

  • Innritun á starfsbrautir fyrir fatlaða nemendur fer fram 1.-28. febrúar
  • Innritun nemenda í 10. bekk fer fram 25. apríl til 10. júní

Athugið að nú fer ekki fram forinnritun líkt og áður en tímabil innritunar hefur verið lengt. Nánari upplýsingar má finna á síðu Menntamálastofnunar https://mms.is/um-innritun

 

Í lokainnritun er mikilvægt að nemendur beri saman einkunnir af vitnisburðarblaði og skráðar einkunnir í Menntagátt. Að lokum er mikilvægt að staðfesta umsóknina því annars telst hún ekki gild.