Skip to content

Litla hryllingsbúðin sýnd fyrir fullu húsi í Hagaskóla

Þessa síðustu daga skólaársins er söngleikurinn Litla hryllingsbúðin sýndur fyrir fullu húsi dag eftir dag. Æfnigar hafa staðið yfir frá því fyrir áramót og allan tímann hefur verið óvíst hvort hægt yrði að sýna söngleikinn með áhorfendur í salnum. Með síðustu tilslökunum á samkomutakmörkunum er hægt að sýna með um 100 gesti á hverri sýningu. Skemmst er frá því að segja að uppselt varð á allar sýningar fljótlega eftir að miðar fóru í sölu og nú er búið að bæta við aukasýningu sem seldist strax upp. Vonandi fá sem flestir tækifæri til að sjá Litlu hryllingsbúðina í Hagaskóla en fyrir þá sem missa af því tækifæri fylgja nokkrar myndir með hér að neðan.

Það er mikið átak að setja upp sýningu sem yfir 100 nemendur koma að, ekki síst á tímum sem þessum. Stjórnendur verkefnisins og allir nemendur sem að því koma hafa þó ekki látið ástandið eða annan mótbyr á sig fá. Niðurstaðan er enn ein stórkostlega sýningin. Eins og undanfarin ár er leikstjórn í höndum Siggu Birnu, leiklistarkennara í Hagaskóla, og Björn Thors sér um hljómsveitarstjórn og útsetningar á tónlist.