Skip to content

Kennsluhættir

Hagaskóli hefur unnið með markvissum hætti að framþróun kennsluhátta um árabil. Í skólastefnunni stendur meðal annars um kennsluhætti:

 • Í Hagaskóla afla nemendur sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðla að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska.
 • Skólastarfið leggur grunn að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfar hæfni þeirra til samstarfs við aðra.
 • Skólabragurinn stuðlar að því að nemendur tileinki sér gott siðgæði, sýni virðingu og vinnusemi.

Kennsluhættir og námsmat

 • Lögð er áhersla á að hver nemandi njóti alhliða menntunar við sitt hæfi og fái hvatningu til náms í samræmi við þroska sinn og áhuga.
 • Lögð er áhersla á að þróa fjölbreytta kennsluhætti og námsmat.
 • Mótuð sé stefna sem miði að því að námsframvinda hvers nemanda sé í samræmi við getu hans og þroska.

Þróunarverkefni í tengslum við skólabrag og kennsluhætti hafa verið ríkur þáttur í starfi skólans og í dag eru eftirfarandi verkefni hvað mest áberandi í þróun kennsluhátta:

Vinátta virðing og jafnrétti

Verkefnið Vinátta – virðing – jafnrétti er þróunar- og forvarnarverkefni sem hefur það að markmiði að auka jákvæð samskipti milli nemenda bæði innan árganga en einnig þvert á árganga ásamt því að stuðla að góðum og jákvæðum skólabrag með ýmsum hætt.

 • Nemendur í 10. bekk sækja um að fá að vera nemendafulltrúar og þeir sem fyrir valinu sjá um jafningjafræðslu í 8. , 9. og 10. bekk . Nemendur geta leitað til þeirra með ýmis mál og nemendafulltrúarnir hlusta og beina þeim á viðeigandi staði.
 • Að hausti sækja nemendafulltrúar námskeið innan skólans til þess að fræðast betur um hlutverk sitt og verkefni auk þess að efla hópinn félagslega.
 • Vinabekkir þvert á árganga hittast nokkrum sinnum yfir veturinn þegar því verður við komið.
 • Þátttakendur í verkefninu sjá um einn til tvo þemadaga á skólaárinu en á síðustu árum hefur verkefnið meðal annars haft umsjón með heimskaffi og fræðslutengdum þemadögum.
 • Nemendafulltrúar standa fyrir samstöðudögum reglulega yfir skólaárið eins og t.d. bleikum degi í október, rauðum degi í desember og náttfatadegi.
 • Á haustönn er unnið að góðgerðaverkefninu, Gott mál, en þá undirbúa allir nemendur skólans góðgerðadag og safna fjármunum fyrir málefni sem ákveðið hefur verið að styrkja. 

Teymiskennsla í 8. bekk

Haustið 2018 er fyrirkomulag kennslu í 8. bekk með breyttu formi. Þeim 8 bekkjardeildum sem nú eru í árgangnum er skipt í tvo hópa. Hvorum hópi fylgja svo ákveðnir kennarar sem vinna saman í teymi og sinna kennslu í öllum bóklegum greinum. Hvor hópur hefur síðan einn gang með fjórum stofum sem eykur flæði milli kennara og kennarar sinna einnig stuðningskennslu inni í tímum.

Markmiðin með þessu fyrirkomulagi eru:

 • Aukið utanumhald um nemendur þar sem færri kennarar koma að kennslu þeirra og kynnast þeim betur.
 • Fleiri tækifæri til þess að taka hefðbundna stundaskrá úr sambani og bjóða upp á fjölbreyttari kennsluhætti með uppbroti og þemaverkefnum.
 • Efla samstarf og starfsþróun kennara sem vinna í teymi.

Verkefnið er farmhald af teymiskennslu sem var sett af stað haustið 2018 og tekur mið af því sem gekk vel þar og því sem hefði mátt betur fara.

LÆSI

Þróunarverkefnið LÆSI - lestur, æfing, skilningur, iðni spratt upp úr þróunarverkefninu Lesum og skiljum sem farið var af stað með árið 2008. Það verkefni var Comeniusar verkefni í samstarfi við Rúmeníu og Tyrkland og leiddi af sér samstarf skóla í Vesturbænum um læsi og lesskilning sem kallast Vesturbæjarlestur. Þessi verkefni hafa hlotið nokkra styrki t.d. Comeniusar styrk og nú síðast 500.000 króna styrk frá Reykjavíkurborg.

Aðalmarkmið verkefnisins LÆSI eru:

 • að efla læsi og þróa kennsluhætti í öllum námsgreinum í Hagaskóla.
 • að vera öðrum skólum fyrirmynd og leiðbeina þeim.

Einn af grunnþáttum nýrrar Aðalnámskrár grunnskóla er læsi. Þeim leiðum sem nota má í skólastarfi til þess að efla læsi nemenda hefur fjölgað og þeir hafa nú aðgang að ýmiss konar tækni til að nota í samskiptum og námi. Því er lögð áhersla á að nemendur læri að nýta sér nýjustu tækni til þess að efla lestur sinn og lesskilning auk þess sem áhersla verður lögð á þjálfun lesturs og ritunar í hefðbundnum skilningi.

Eins og niðurstöður rannsókna hafa sýnt er verulega þörf á að efla lesskilning á unglingastigi. Margir nemendur lesa sér ekki til gagns og gefast upp fljótlega eftir að í framhaldsskóla er komið. Í Hagaskóla viljum við gera allt til þess að nemendur okkar verði tilbúnir til að takast á við það sem bíður þeirra að grunnskólanámi loknu.

Nauðsynlegt er að virkja alla kennara í eflingu læsis allra nemenda skólans. Til þess að þetta gangi upp er mikilvægt að kennarar kynnist og tileinki sér bestu færu leiðir að þessu markmiði. Kennarar þurfa að vera meðvitaðir um sérþarfir nemenda, námsstíla þeirra og að ekki læri allir nemendur eins. Mikilvægt er að þeir öðlist færni til að kenna nemendum að beita áhrifaríkum lestraraðferðum sem auki lesskilning og efli læsishæfni þeirra.

Kennarar tileinki sér nýjar aðferðir við eflingu læsis í víðum skilningi og kenni nemendum að beita nútímatækni og nýta miðla við nám sitt.

Lögð verður áhersla á allar tegundir læsis, s.s. lestur til náms, yndislestur, upplýsingalæsi og myndlæsi.

Kennsluhættir hafa áhrif á læsi og því mun hver kennari í Hagaskóla skoða sína kennsluhætti með það að markmiði að efla læsi í sinni grein. Kennarar munu bæði vinna saman innan greina sem og þvert á greinar. Áhersla verður lögð á það sem nemendur læra í stað þess hvað á að kenna. Nemendur verða aðstoðaðir við að finna námsstíl sinn og að finna hvaða leið þeim hentar best við námið.

Réttindaskóli UNICEF

Hagaskóli varð Réttindaskóli UNICEF 20. nóvember 2019 á 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Innleiðingarferlið hafði þá staðið í rúmt ár. Það miðaði að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í allt skólastarf í Hagaskóla.  Réttindaskólaverkefnið er alþjóðlegt vottunarverkefni sem hefur síðastliðinn áratug verið innleitt með góðum árangri í þúsundum skóla um allan heim.  Skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar sem taka þátt í verkefninu geta öðlast viðurkenningu frá UNICEF á Íslandi sem Réttindaskólar og Réttindafrístund.

Fyrsta skrefið í verkefninu var að stofna réttindaráð en ráðið hafði umsjón með verkefninu. Börn eru í meirihluta í ráðinu en það er einnig skipað foreldri, starfsfólki og fulltrúa stjórnenda. Nánari upplýsingar um réttindaskólaverkefnið má finna á vef UNICEF: https://unicef.is/rettindaskoli