Skip to content

Hagaskóli er Réttindaskóli UNICEF

Frá afhendingunni í dag. Mynd UNICEF/Steindór

Hagaskóli varð í dag Réttindaskóli UNICEF ásamt öðrum grunnskólum og frístundastarfi í Vesturbænum. Athöfn fór fram á sal nú í dag á alþjóðlegum degi réttinda barna. Nemendur sáu um athöfnina sem saman stóð af tónlistarflutningi, afhendingu söfnunarfjárins eftir Gott mál og svo viðurkenningu til Hagaskóla og Frosta sem Réttindaskóli- og Réttindafrístund UNICEF. Meðal þeirra sem tóku til máls og töluðu til nemenda voru Dagur B Eggertsson borgarstjóri og Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF. Báðir töluðu þeir um að nemendur í Hagaskóla hefðu tekið málin í sínar hendur svo eftir var tekið þegar þeir börðust fyrir réttindum barna á flótta á þessu ári. Því væri Hagaskóli mjög vel að nafnbótinni Réttindaskóli UNICEF kominn.

Samantekt Réttindaráðs á verkefnum í Hagaskóla.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna innleiddur í skólastarfið

Réttindaskólar UNICEF byggja á hugmyndafræði að alþjóðlegri fyrirmynd, sem innleidd hefur verið í þúsundum skóla um allan heim með góðum árangri. Réttindaskólar vinna markvisst að því að börn, starfsfólk skóla, foreldrar og aðrir sem tengjast skólunum þekki réttindi barna og beri virðingu fyrir þeim. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lagður til grundvallar í starfi skólanna og unnið er að því að skapa umhverfi sem byggir á þátttöku barna, jafnrétti, lýðræði og virðingu.