Skip to content

Gott mál í Hagaskóla

Góðgerðardagurinn verður haldinn fimmtudaginn 7. nóvember
kl 16:00 til 19:00.

Gott mál er góðgerðaviðburður sem haldinn er árlega af nemendum Hagaskóla. Nemendur og starfsfólk skólans eru nú að halda daginn í ellefta skiptið.

Mikið verður um að vera á góðgerðadeginum en þá opna nemendur stofur sínar fyrir gestum og gangandi. Boðið er upp á ýmiss konar skemmtanir eins og til dæmis draugahús í kjallaranum, sameiginlegt kaffihús, skemmtiatriði, veitingastaði, lukkuhjól, happdrætti og hvað annað sem nemendum dettur í hug.

Markmiðið með Góðu máli er að vekja nemendur til umhugsunar um hvers þeir eru megnugir og hverju þeir geti áorkað sem hópur þegar kemur að hvers kyns hjálparstarfi.

Hefð er fyrir því að  söfnunarféð renni til tveggja málefna. Ákveðið var að halda áfram að styrkja Iklaash munaðarleysingjahælið í Kenýa og velja eitt nýtt málefni. Mikil umræða er um náttúruvernd og eftir langar umræður meðal bekkjarfulltrúa í framkvæmdanefnd var ákveðið með atkvæðagreiðslu að hitt málefnið sem nemendur styrkja þetta árið verði Landvernd sem fagnar 50 ára afmæli um þessar mundir. Í kosningu var mjög mikill meirihluti fyrir því að styrkja Landvernd og sjá nemendur jafnvel fyrir sér að vinna eitthvað með félaginu í vetur en það kemur betur í ljós síðar.

Skorað er á alla að mæta og leggja góðu málefni lið.