Skip to content

Gleðilegt sumar

Í dag kveðja nemendur í 8. og 9. bekk kennara sína og fá vitnisburð afhentan. Útskrift 10. bekkinga fór fram í Háskólabíói í gær, miðvikudaginn 9. júní. Alls útskrifuðust 206 nemendur við hátíðlega athöfn. Sérlega ánægjulegt var að geta boðið aðstandendum uppá að vera viðstaddir athöfnina. Auk eiginlegrar útskriftar var athöfnin borin uppi af tónlistaratriðum nemenda og ræðuhöldum nemenda og starfandi skólastjóra, Hildar Einarsdóttur. Útskriftarræður nemenda fluttu Svava Ljósbrá Sigurðardóttir og Ólafur Björgúlfsson en þau rifjuðu upp árin í Hagaskóla og þökkuðu skólanum á fallegan hátt fyrir samveruna. Í tónlistaratriðum nemenda komu fram Margrét Lára Jónsdóttir, Þorri Þrastarson, Jana Gajic, Sunna Benjamínsdóttir Bohn, Sigrún Klausen, Syd West Árný og Þórdís Árnadóttir. Fjölmargir nemendur fengu viðurkenningu fyrir góðan námsárangur en Ragna María Sverrisdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í öllum námsgreinum. Við athöfnina var Inga Mjöll Harðardóttir kennari kvödd og henni þakkað fyrir fagmennsku og góð störf í áratugi.

Útskriftarnemum er óskað innilega til hamingju og þeim fylgja góðar framtíðaróskir og þakkir fyrir ánægjulega samveru og samstarf. Í kveðjuræðu sinni sagði Hildur Einarsdóttir starfandi skólastjóri að hópurinn sem nú væri að kveðja skólann hafi sýnt að hann sé vel samstilltur og hefur úthald og aðlögunarhæfni þegar á móti blæs. Hildur hvatti nemendur til að halda áfram að byggja ofan á þann grunn sem þau hafi byggt upp í Hagaskóla og benti þeim á að það snúist ekki eingöngu um formlegt nám heldur enn frekar um það hvers konar manneskjur nemendur vildu vera, hvaða lífsgildi þeir vildu hafa í heiðri og hvaða virðingu þeir vilji sýna sjálfum sér og náunganum.

Starfsfólk Hagaskóla sendir öllum nemendum og fjölskyldum þeirra bestu kveðjur með von um að þið hafið það sem allra best í sumar.

Skólasetning fyrir skólaárið 2021-2022 verður mánudaginn 23. ágúst og hefst kennsla þann sama dag.