Hagaskóli

Móttökuáætlun fyrir nýja nemendur

Móttökuáætlun fyrir nýja nemendur

 Móttaka nýrra nemenda

Í Hagaskóla er lögð áhersla á að taka vel á móti nýjum nemendum. Mikilvægt er að nemandinn og foreldrar hans fái strax í upphafi jákvæða mynd af skólanum og að foreldrum og nemendum finnist þeir velkomnir í skólann.

Að vori áður en nemendur hefja nám í 8. bekk í Hagaskóla er þeim boðið í heimsókn í skólann ásamt kennurum aðkomuskólanna. Þegar nemendur úr öllum aðkomuskólunum hafa komið í heimsókn er foreldrum boðið til seinnipartsfundar þar sem farið er yfir skólaskiptin og fyrirkomulag skólastarfs í Hagaskóla.

Nemandi sem  hefur nám þegar að skólaárið er hafið kemur í viðtal ásamt forráðamönnum til  deildarstjóra nemendaþjónustu, námsráðgjafa eða stjórnenda. Þeir setja nemandann og foreldra inn í skipulag skólastarfs og upplýsa umsjónarkennara um væntanlegan nemanda. Umsjónarkennari ber ábyrgð á að taka á móti nýjum nemenda og koma honum inn í bekkjarstarf og daglegt líf í skólanum.

 

Áætlun um móttöku nemenda með annað móðurmál en íslensku

  1. Innritunarblað afhent sem foreldrar fylla út í skólanum eða heima. Tími ákveðinn fyrir móttökuviðtal þar sem foreldrar og nemendur mæta ásamt túlki ef þörf krefur. Skólinn sér um að panta túlk. Reiknað er með að viðtalið standi í eina til tvær klst. Foreldrar beðnir um að hafa meðferðis heilsufarsupplýsingar og einkunnir frá fyrri skóla í viðtalið.
  2. Deildarstjóri nemendaþjónustu velur bekk fyrir nemandann. Umsjónarkennara tilkynnt um væntanlegan nemanda, hvaðan hann er og hvenær móttökuviðtal fer fram. Öðrum kennurum sem kenna bekknum tilkynnt um væntanlegan nemanda. Umsjónarkennari undirbýr bekkinn fyrir komu nýs nemanda.
  3. Gögn sem gott er að hafa með í viðtalið eru t.d. skóladagatal, innkaupalisti, upplýsingar um mötuneyti, ásamt upplýsingum um félagsstarf í skólanum og í hverfinu.
  4. Í móttökuviðtali sitja foreldrar, nemandi, túlkur (ef þörf krefur), deildarstjóri nemendaþjónustu, sérkennari, kennari í íslensku sem öðru máli ásamt umsjónarkennara.

 

Í viðtalinu:

»             eru fengnar bakgrunnsupplýsingar um nemandann s.s. fjölskylduhagi, tungumál talað/töluð heima, fyrri skólagöngu, helstu styrkleika/veikleika nemandans og helstu áhugamál.

»             er stundaskrá nemandans útskýrð.

»             eru reglur um íþróttir og sund útskýrðar.

»             er farið yfir innkaupalista. Hvað þarf að kaupa og hvað sér skólinn um að útvega.

»             er farið yfir skóladagatal.

»             eru símanúmer skólans, heimasíða og Mentor útskýrð.

»             er farið yfir skólareglur og mætingaskyldu.

»             er farið yfir fyrirkomulag mötuneytis og fyrirkomulag greiðslu fyrir þjónustu þess.

»             er farin gönguferð um skólann þar sem helstu svæði eru kynnt.

»             er bekkur nemandans heimsóttur og hann kynntur fyrir bekknum.

»             er fjölskyldu nemandans boðið að fundin sé íslensk vinafjölskylda fyrir hana.

 

  1. Sérkennari útbýr einstaklingsstundaskrá í samvinnu við umsjónarkennara þar sem ákveðið er hvenær nemandinn er með bekknum og hvenær hann er í námsveri.
  2. Áhersla er lögð á gagnkvæma félagslega aðlögun og kennslu í íslensku sem öðru máli. Mikilvægt er að nemendur viðhaldi móðurmáli sínu og fái tækifæri til að nota það við nám sitt.
  3. Ef fjölskylda nemandans hefur ekki þegið að fundin sé vinafjölskylda fyrir hana sér umsjónarkennari um að finna stuðningsaðila (mentor) úr bekknum fyrir nemandann í samvinnu við deildarstjóra nemendaþjónustu.
  4. Reiknað er með að eftir eina önn sé nemandinn að mestu farinn að stunda nám með umsjónarbekk sínum þar sem námsefnið er lagað að hans þörfum og að fullu eftir einn vetur. Hann mun þó stunda nám í íslensku sem öðru máli í stað íslensku sem móðurmáls og að auki mun honum standa til boða aðstoð við heimanám.