Hagaskóli

Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun Hagaskóla

 

Stefna Hagaskóla er að stuðla að jafnrétti og mannréttindum meðal nemenda og starfsfólks skólans. Hver einstaklingur, nemandi eða starfsmaður, verði metinn að verðleikum og sýni öllum virðingu í samskiptum. Kynbundinn mismunun er óheimil, í hvaða formi sem hún birtist. Stefnt er að því að tryggja hverjum og einum viðfangsefni  og menntun við hæfi. Lögð er áhersla á vináttu, virðingu og jafnrétti í skólastarfi og skólasamfélaginu.

Jafnréttisáætlun Hagaskóla byggir á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu. Skólinn starfar samkvæmt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og er hún höfð að leiðarljósi við gerð jafnréttisáætlunar skólans ásamt því að hún tekur viðmið af jafnréttislögum.

Skólastjóri ber ábyrgð á jafnréttisáætluninni, að henni sé fylgt og hún sé endurskoðuð reglulega. Í framkvæmdaáætlun kemur fram hvernig henni er viðhaldið og hverjir bera ábyrgð á einstökum þáttum hennar ásamt tímaáætlun.

 

Í Hagaskóla:

  • er leitast við að hafa sem jafnast hlutfall stúlkna og drengja í náms- og valhópum
  • er leitast við að hafa kynjahlutfall meðal starfsfólks eins jafnt og kostur er
  • er leitast við að hafa kennsluhætti sem fjölbreyttasta
  • er leitast við að vinna markvisst gegn stöðluðum kynímyndum stúlkna og drengja
  • er leitast við að vinna markvisst gegn hvers kyns fordómum þ.á.m. vegna uppruna, þjóðernis, litarháttar eða trúarbragða
  • er einelti og kynferðisleg áreitni ekki liðin
  • er óheimilt að mismuna nemendum og starfsfólki vegna fötlunar
  • er óheimilt að mismuna nemendum og starfsfólki vegna kyns og/eða kynhneigðar
  • eru kennarar hvattir til að þess að jafnréttis sé gætt við val á námsefni

 

 Nemendur

 
Í Hagaskóla er lögð áhersla á jöfn tækifæri kynjanna til alls sem viðkemur skólastarfinu hvort sem það tengist námi eða félagsstarfi. Kynjasamþættingar er gætt við stefnumótun og áætlanagerð í skólanum. Lögð er áhersla á að nemendum sé ávallt sýnd virðing í samskiptum og þeir metnir að verðleikum þannig að hæfileikar hvers og eins fái að njóta sín. Kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin.
 
Kynjahlutfall

Í Hagaskóla er lögð áhersla á að  kynjaskipting í bekkjardeildum sé sem jöfnust og einnig í valhópum þar sem það á við. Í list- og verkgreinum hefur hópum verið kynskipt. Stundum þykir einnig heppilegt að skipta hópum eftir kyni t.d. á bekkjarfundum, í hópavinnu, í sjálfstyrkingarhópum og þegar verið er að ræða mál sem varða eingöngu annað kynið.

 

Námsmat og námsefni

Stefnt er að því að skoða námslega stöðu nemenda árlega með tilliti til dreifingar einkunna eftir kyni. Í því sambandi er mikilvægt að kennsluhættir og námsefni sé í sífelldri endurskoðun með tilliti til ólíkra þarfa kynjanna. Tryggt er að námsefni sé þannig úr garði gert að kynjum sé ekki mismunað.

Hvernig: Dreifing einkunna er borin saman með tilliti til niðurstöðu kynjanna. Þetta er gert  tvisvar á skólaárinu, við lok hvorrar annar. Ef niðurstöður benda til þess að grípa þurfi til aðgerða til að jafna stöðu kynjanna enn frekar þá er það á ábyrgð fagstjóra og greinakennara að finna leiðir til að koma á móts við ólíkar þarfir nemenda.  

Ábyrgð: Stjórnendur, fagstjórar

Hvenær: Við lok haust- og vorannar

 

Félagsstarf nemenda

Umsjónarmenn félagsstarfs skulu sjá til þess að kynin taki jafnan þátt í stjórn og mótun starfsins og bæði kynin ávallt hvött til þátttöku í félagsstarfi. Jafnrétti kynjanna skal haft að leiðarljósi við val í ræðu- og spurningalið skólans eða við hvert það tækifæri sem nemendur skólans koma fram fyrir hans hönd. Einnig skal leggja áherslu á jafna þátttöku í íþrótta- og skákmótum.

Hvernig: Umsjónarmenn félagsstarfs hafa umsjón með því að jafna stöðu kynjanna á þeim öllum þeim vettvangi sem nemendur koma saman fyrir hönd skólans.

Ábyrgð: Umsjónarmenn félagsstarfs, Frostaskól

Hvenær: Jafnt og þétt yfir skólaárið og þegar að ákveðnir viðburðir eru á dagskrá í skólastarfinu.

 

Jafnréttisfræðsla

Nemendur skulu fá fræðslu um jafnrétti kynjanna. Í þeirri fræðslu skal leggja áherslu á styrkleika, skyldur og réttindi beggja kynja. Skólanum ber að fræða nemendur sína um jafnréttismál. Fræðslunni má skipta í beina og óbeina fræðslu; á beinan hátt þar sem verkefni sem varða kynin eru unnin og á óbeinan hátt þar sem jafnrétti er samþætt inn í allt starf skólans. Jafnréttisfræðsla í skólum hefur lengi verið lögbundin í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Náms- og starfsfræðsla í skólanum er ávallt samkvæmt jafnréttissjónarmiðum og bæði kynin hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sama nám og störf.

Hvernig: Skólinn starfar samkvæmt markmiðum aðalnámskrár. Jafnréttisfræðsla tengist mörgum greinum en kennurum er bent á aðgengilegt námsefni á vefsíðunum http://jafnrettiiskolum.is/jis/?D10cID=News og http://www.nams.is/  sem geta nýst vel í jafnréttisfræðslu. Gerð veri grein fyrir jafnréttisfræðslu í kennsluáætlunum þar sem við á.

Ábyrgð: Kennarar

Hvenær: Við skipulag nýs skólaárs.

 

Kynning

Kynning á jafnréttisáætlun á að fara fram að hausti. Kynning fyrir foreldra á kynningarfundum og fyrir nemendur að hausti. Jafnréttisáætlun má finna á heimasíðu skólans og hún er hluti af skólanámskrá.

Telji nemandi að jafnrétti sé brotið í Hagaskóla skal hann leita til námsráðgjafa eða umsjónarkennara sem í sameiningu finna hverju máli farveg.

Hvernig:                Jafnréttisáætlun er aðgengileg á heimsíðu skólans http://www.hagaskoli.is/ , hana má einnig finna í skólanámskrá skólans og á kynningarfundum er tekið fram að í Hagaskóla sé unnið samkvæmt jafnréttisáætlun.

Ábyrgð: Stjórnendur og umsjónarmaður heimsíðu

Hvenær: Við upphaf skólaárs hverju sinni ásamt því að upplýsingar eru ávallt aðgengilegar á heimasíðu.

 

 

Starfsfólk

 

Markmið jafnréttisstefnu Hagaskóla er að tryggja að konur og karlar njóti jafnréttis, að starfsfólk sé metið að verðleikum og sýni hvort öðru virðingu í samskiptum. Allar mikilvægar ákvarðanir sem varða starfsfólk skulu metnar út frá jafnréttis- og mannréttindasjónarmiðum. Í Hagaskóla hefur lengi verið nokkuð jafnt kynjahlutfall meðal starfsfólks og með því betra sem gerist í grunnskólum og er leitast við því að halda þessu hlutfalli kynjanna sem bestu. Starfsfólk starfar samkvæmt jafnræðisreglunni og ber að virða mannréttindi allra í skólasamfélaginu án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu.

Hvernig:  Að stjórnendur tryggi öllum starfsmönnum jöfn tækifæri og að starfsfólk skólans vinni samkvæmt leiðarljósum í samskiptum sem unnin voru af starfsmönnum vorið 2014.

Ábyrgð: Stjórnendur og allir starfsmenn

Hvenær: Reglulega

Ráðningar

Jafnréttissjónarmið skulu höfð af leiðarljósi þegar ráðið er í stöður við skólann. Hafa skal í huga að í hópi starfsfólks sé fjöldi karla og kvenna sem jafnastur. Starfsfólk skólans eru mikilvægar fyrirmyndir nemenda og því skiptir miklu máli að hafa kynjahlutfall sem jafnast.

Hvernig: Að stöður séu auglýstar þannig að bæði kynin eru hvött til að sækja um og jafnræðis sé gætt í ráðningum.

Ábyrgð: Skólastjórnendur

Hvenær: Í hvert sinn sem ráðningar eiga sér stað.

 
Launakjör

Konur og karlar skulu njóta sömu launakjara og hafa jafna möguleika á launuðum viðbótarstöðum innan skólans. Stjórnendur gera reglulega athugun á launakjörum kynjanna á vinnustaðnum.

Hvernig: Að stafsmenn sem eru með sambærilega menntun og ábyrgð hafi jafna möguleika á yfirvinnu eða öðrum viðbótarstöðum óháð kyni, stöðu eða aldri. Stjórnendur gera athugun á launakjörum starfsmanna að minnsta kosti tvisvar á skólaárinu og bregðast við ef ástæða þykir.

Ábyrgð: Skólastjórnendur

Hvenær: Við lok vorannar.

 
Starfsaðstæður

Starfsaðstæður skulu taka mið af þörfum beggja kynja og leitast er við að koma á móts við ólíkar þarfir starfsfólks svo sem vegna fötlunar.

Hvernig: Stjórnendur fái upplýsingar um ólíkar þarfir starfsmanna og bregðist við eftir því sem þörf er á hverju sinni.

Ábyrgð: Skólastjórnendur

Hvenær: Við upphaf skólaárs hverju sinni.

 
Endurmenntun og starfsþróun

Starfsfólki skulu tryggðir möguleikar til endurmenntunar og starfsþróunar, óháð kyni. Starfsmenn eru einnig hvattir til að sækja námskeið sem tengjast einstökum námsgreinum eða áhugasviði starfsmanna.

Hvernig: Námskeið og ráðstefnur eru auglýstar reglulega með auglýsingum eða með  tölvupósti til starfsmanna. Starfmenn eru hvattir til að sækja einstök námskeið sem geta til að mynda tengst stefnu skólans í fræðslumálum hverju sinni og/eða áhugasviði starfsmanna.

Ábyrgð: Stjórnendur, fagstjórar og starfsmenn

Hvenær: Reglulega

 

 

Einelti og kynferðislega áreitni

Halda skal áfram fræðslu um einelti í tengslum við Olweusaráætlunina og tengja efni hennar enn frekar inn í starfsmannahópinn. Mikilvægt er að starfsfólk sé meðvitað um muninn á áreitni og einelti. Í Hagaskóla er kynferðisleg áreitni ekki liðin. Starfsmenn skólans settu sér leiðarljós í samskiptum vorið 2014 þar sem m.a. er lögð áhersla á gildi góðra samskipta og virðingar meðal starfsmanna.

Telji starfsmaður að jafnrétti sé brotið í Hagaskóla skal hann leita til trúnaðarmanns, stjórnenda eða mannauðssviðs Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sem leita lausna í samráði við starfsmanninn.

Hvernig: Starfmenn fá reglulega fræðslu um einelti, áreitni og mikilvægi góðra samskipta. Báðum kynjum er gert kleift að samræma vinnu og einkalíf. Reynt er að hafa starfsumhverfið eins sveigjanlegt og kostur er og bæði kynin hafa jöfn tækifæri til foreldraorlofs eða leyfi vegna annarra óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.

Ábyrgð: Stjórnenda og verkefnastjóra

Hvenær: Reglulega

Jafnréttisáætlun Hagaskóla skal endurskoða árlega fyrst í stað.