Hagaskóli

Forvarnarstefna

Forvarnarstefna

Forvarnarstefna Hagaskóla

 

Samfélaginu ber skylda til að byggja upp sterka einstaklinga sem finna til öryggis í umhverfi sínu og því er mikilvægt að fræða unglinga þannig að þeir geti lifað í sátt við umhverfið, sjálfa sig og aðra.  Mikilvægt er að þeir hljóti þjálfun í samskiptum og tjáningu og læri að skilja tilfinningar og hegðun sína sem og annarra.

Meirihluti unglinga býr við ágætis aðstæður og líður vel.  Með góðu samstarfi og markvissri vinnu er hægt að stækka þann hóp enn frekar.  Mikilvægt er að grípa strax inn í líf unglings ef einhverjir þættir þess eru í ólagi og stöðva þannig óæskilega þróun.  Hver einstaklingur skiptir miklu máli og það er á ábyrgð allra í samfélaginu að láta sig málið varða.

Hagaskóli fylgir forvarnastefnu Reykjavíkurborgar en sú stefna er byggð á niðurstöðum rannsókna og gefur því möguleika á að bregðast við aðstæðum út frá fyrirliggjandi upplýsingum og reynslu

Markmið forvarnastefnu:

»             Að byggja upp jákvæða sjálfsmynd unglinga

»             Að styrkja félagsfærni unglinga

»             Að unglingar tileinki sér heilbrigða lífhætti

Leiðir að markmiðum:

»             Fræðsla til foreldra/forráðamanna þar sem lögð er áhersla á m.a. tilfinningatengsl, aðbúnað, hegðun, viðhorf og þroska unglingsáranna.

»             Stuðla að og hvetja til eftirlits og eftirfylgni foreldra/forráðamanna varðandi skólagöngu og heimanám.

»             Foreldrasamstarf verði aukið m.a. með fræðslu tengdri forvörnum, gerð foreldrasamninga, hvatningu til að virða útivistartíma og taka þátt í hverfisvöktum/foreldrarölti.

»             Opin, aðgengileg ráðgjöf og greiður aðgangur að viðeigandi úrræðum fyrir foreldra/forráðamenn og unglinga.  Þessu hlutverki gegna m.a. skólastjórnendur, námsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur, sérkennari og umsjónarkennari.

»             Fræðsla til starfsfólks skóla þar sem lögð verður áhersla á viðhorf, samskipti og að taka á ágreiningi. 

»             Fræðsla á vegum skólans um afleiðingar tóbaks-, áfengis- og fíkniefnaneyslu.

»             Stuðla að aukinni heilsurækt, geðrækt og jákvæðum lífsstíl meðal unglinga.

»             Hvatt verði til aukinnar áherslu á að fylgja manneldismarkmiðum varðandi mataræði bæði heima og í skólanum.

»             Hvetja unglinga til að taka meiri ábyrgð á sjálfum sér, hegðun sinni og gjörðum að ógleymdu umhverfi sínu.

 

Forvarnarfulltrúar: Edda Kristín Hauksdóttir og Soffía Thorarensen, auk hjúkrunarfræðings