Skip to content

Óskað eftir fulltrúum 8. bekkinga í Réttindaráð

Lógó Réttindaskóla Unicef

Annað starfsár Réttindaráðs er að hefjast. Óskað er eftir fulltrúum nemenda í 8. bekk í Réttindaráð. Í ráðinu sitja tveir fulltrúar ú hverjum árgangi, þrír fulltrúar úr nemendaráði, tveir kennarar, einn stjórnandi og eitt foreldri. Réttindaráð hefur með höndum innleiðingu verkefnisins Réttindaskóli/Réttindafrístund UNICEF en Hagaskóli og Frosti eru þátttakendur í verkefninu. Um er að ræða tveggja ára innleiðingarferli og er síðara árið að hefjast. 

Ef þú ert nemandi í 8. bekk og hefur áhuga á að taka þátt, skráðu nafn þitt þá hér. Dregið verður úr innsendum nöfnum föstudaginn 13. september.

Um verkefnið

Að vera Réttindaskóli UNICEF felur í sér að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er lagður til grundvallar í öllu skólastarfi. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt námsumhverfi, efla jákvæð samskipti, auka þekkingu á mannréttindum og stuðla að gagnkvæmri virðingu innan skólasamfélagsins. Með verkefninu er einnig skapaður rammi utan um þau ólíku sjónarhorn, stefnur og gildi sem skólum er ætlað að vinna eftir, svo sem aðalnámskrá grunnskóla, grunnskólalög og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna – sem var lögfestur hér á landi árið 2013.

Betri skóli með þátttöku barnanna

Rannsóknir sem gerðar hafa verið í meira en 1.600 Réttindaskólum í Bretlandi hafa sýnt afar jákvæðar niðurstöður. Einelti og ofbeldi í skólunum minnkaði, börnin sýndu aukið umburðarlyndi og skilning á fjölbreytileika, líðan barna batnaði og starfsánægja fullorðinna jókst umtalsvert.  Og það sem er líka mikilvægt, umræða um réttindi barna og Barnasáttmálann átti sér stað inni á heimilum barnanna. 

Nánari upplýsingar um Réttindaskóla UNICEF má finna hér: https://unicef.is/rettindaskoli