Sunnudaginn 13. maí veitti Íslandsdeild IBBY sínar árlegu viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar, Vorvinda, við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambands Íslands. Vorvindum er ætlað að vekja athygli á verkum og starfsemi sem hleypir ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu.

Bókaráð Hagaskóla hlaut Vorvinda fyrir framlag sitt til barnamenningar. Bókaráð Hagaskóla samanstendur af 15 nemendum úr Hagaskóla. Ráðið stóð fyrir málþingi fyrr í vetur, Barnið vex en bókin ekki, sem sýndi fram á tilfinnanlegan skort á barna- og unglingabókum á íslensku. Fjölmargir sóttu þingið, meðal annars menntamálaráðherra Íslands sem í kjölfar málþingsins boðaði til aðgerða og setti á fót sérstakan styrktarsjóð til handa barnabókaútgáfu.

Þrjú önnur verkefni hlutu viðurkenningu en upplýsingar um Vorvinda 2018 og fleiri myndir frá verðlaunaafhendingunni, má finna á vef Íslandsdeildar IBBY.

Mynd og texti er fenginn að láni af vef Íslandsdeildar IBBY.