Hagaskóli

iPad fyrir M2 nemendur

 

 Nemendur settir í samband

iPad spjaldtölvur fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku í Hagaskóla

 

Mikil áhersla er lögð á jafnrétti til náms í íslensku skólakerfi. Skólarnir eigi að haga störfum sínum í samræmi við þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Markmiðið er að verkefni höfði jafnt til allra óháð kyni, fötlun, búsetu, uppruna, trú og litarhætti. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að veita nemendum með annað móðurmál en íslensku aðgang að menntun í íslensku skólakerfi til jafns við aðra nemendur og kapp lagt á að umræddir nemendur fylgi jafnöldrum sínum í öllum námsgreinum eins og unnt er.

 

Í Hagaskóla eru allnokkrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Þeir hafa verið mislengi á Íslandi og eru því komnir mislangt í íslenskunámi sínu. Nokkrir þessara nemenda fá sérstaka kennslu í íslensku sem öðru máli þar sem tekið er mið af stöðu þeirra í málinu og aðrir stunda nám í íslensku með bekk þar sem þeir fylgja námskrá bekkjarins að mestu leyti. Hvað aðrar námsgreinar skólans varðar eiga margir umræddra nemenda í töluverðum erfiðleikum með að fylgja jafnöldrum sínum í náminu hvort sem þeir hafa verið hér á landi til lengri eða skemmri tíma. Þá skortir hugtakaskilning til þess að fylgjast með því sem fram fer í kennslustundum og þeir eiga í verulegum erfiðleikum með að lesa námsbækurnar sem allar eru á íslensku.

 

Ýmislegt hefur verið gert til þess að reyna að koma til móts við þessa nemendur. Reynt hefur verið að einfalda námsefni og einnig hafa sumir nemendanna útvegað sér bækur um svipað efni og þeim er ætlað að læra á móðurmáli sínu. Þótt þetta hafi reynst vel í sumum tilvikum þá fylgja þessu ýmsir annmarkar.

 

Notkun spjaldtölva býður upp á ýmsa möguleika til þess að koma til móts við nemendur með annað móðurmál en íslensku. Í stað þess að taka þá út úr kennslustundum eða útvega þeim sérstakt léttara námsefni, viljum við að þeir fái sams konar viðfangsefni og aðrir nemendur og noti spjaldtölvur sem hjálpartæki til þess að ná tökum á námsefninu. Tækið veitir þessum nemendum aukin tækifæri til þess að vera í samskiptum við kennara og umsjónaraðila þeirra, bæði hvað varðar nám og félagsstarf.

 

Með spjaldtölvum geta nemendur hvar sem er nýtt sér móðurmál sitt til skilnings á því efni sem þeim er ætlað að læra. Ef nemendur fá ekki tækifæri til þess að þroska hugsun sína á móðurmálinu er hætta á að þeir staðni og nái hvorki tökum á því né nýja málinu.

 

Þeir nemendur í Hagaskóla sem nota spjaldtölvur hafa aðgang að námsbókum sínum í tækinu. Þeir hafa möguleika á að nota forrit sem les pdf – skjöl þar sem þeir geta með því að smella á ákveðin orð flett upp skilgreiningum og þýðingum t.d. á Wikipedia og Google. Þá nota þeir námsumsjónarkerfið Moodle þar sem kennarar geta sett inn námsefniefni á mismunandi formi hvort sem um er að ræða texta, hljóð eða mynd. Í Moodle geta nemendur með sama móðurmál deilt orða- og hugtakasöfnum.  Þar má vista ítarefni, skilaverkefni og gera gagnvirkar æfingar sem nemendur geta spreytt sig á utan kennslustofunnar. Hægt er að nota vefinn á íslensku, dönsku, ensku, norsku, pólsku og sænsku.

 

Spjaldtölvurnar nýtast í talþjálfun þar sem nemendur hlusta á íslenskan framburð og taka upp eigið tal. Spjaldtölvur nýtast einnig vel í prófum bæði skriflegum og munnlegum.

 

Möguleikar á notkun spjaldtölva í skólastarfi eru óþrjótandi. Auk þess sem fram hefur komið má nefna að með notkun spjaldtölva hefur nemandinn aðgang að upplýsingum á sínu móðurmáli sem hann getur tengt við það efni sem verið er að fjalla um í kennslustund og þannig byggt upp þekkingu á efninu og íslenskan orðaforða tengdan því. Þá má hugsa sér samstarf við skóla í heimalandi nemenda þar sem verið er að vinna að sams konar verkefnum á báðum stöðum. Nemendur hefðu þá tækifæri til þess að hlusta á fyrirlestra á móðurmáli sínu og unnið sams konar verkefni og íslensku nemendurnir  gegnum spjaldtölvuna.

 

Þróunarverkefnið Spjaldtölvur fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku fór af stað í febrúar 2013 og strax mátti merkja framfarir hjá nemendum. Einkunnir nemenda hækkuðu umtalsvert og sjálfstraust þeirra gagnvart náminu jókst. Reynslan hefur t.d. sýnt að marga nemendur sem búið hafa á íslandi frá fæðingu en hafa annað móðurmál sem þeir nota heima hjá sér skortir oft verulega hugtakaskilning í íslensku. Fyrir þessa nemendur geta spjaldtölvurnar nýst til þess að nota bæði málin jöfnum höndum um leið og þeir stunda nám sitt.

 

Spjaldtölvur í skólastarfi eru engin töfralausn en ef rétt er að farið veita þær hópi nemenda aðgang að upplýsingum og fjölga tækifærum þeirra og skólasamfélagsins í heild til gagnkvæmrar aðlögunar.