Hagaskóli

Efling læsis og þróun kennsluhátta

Aðalmarkmið verkefnisins er að efla læsi og þróa kennsluhætti í öllum námsgreinum í Hagaskóla. Annað markmið er að vera öðrum skólum fyrirmynd og leiðbeina þeim. Einn af grunnþáttum nýrrar Aðalnámskrár grunnskóla er læsi. Þeim leiðum sem nota má í skólastarfi til þess að efla læsi nemenda hefur fjölgað og þeir hafa nú aðgang að ýmiss konar tækni til að nota í samskiptum og námi. Því er lögð áhersla á að nemendur læri að nýta sér nýjustu tækni til þess að efla lestur sinn og lesskilning auk þess sem áhersla verður lögð á þjálfun lesturs og ritunar í hefðbundnum skilningi. Eins og niðurstöður rannsókna hafa sýnt er verulega þörf á að efla lesskilning á unglingastigi. Margir nemendur lesa sér ekki til gagns og gefast upp fljótlega eftir að í framhaldsskóla er komið. Í Hagaskóla viljum við gera allt til þess að nemendur okkar verði tilbúnir til að takast á við það sem bíður þeirra að grunnskólanámi loknu.

laesi_nyttNauðsynlegt er að virkja alla kennara í eflingu læsis allra nemenda skólans. Til þess að þetta gangi upp er mikilvægt að kennarar kynnist og tileinki sér bestu færu leiðir að þessu markmiði. Kennarar þurfa að vera meðvitaðir um sérþarfir nemenda, námsstíla þeirra og að ekki læri allir nemendur eins. Mikilvægt er að þeir öðlist færni til að kenna nemendum að beita áhrifaríkum lestraraðferðum sem auki lesskilning og efli læsishæfni þeirra.Kennarar tileinki sér nýjar aðferðir við eflingu læsis í víðum skilningi og kenni nemendum að beita nútímatækni og nýta miðla við nám sitt. Lögð verður áhersla á allar tegundir læsis, s.s. lestur til náms, yndislestur, upplýsingalæsi og myndlæsi. Kennsluhættir hafa áhrif á læsi og því mun hver kennari í Hagaskóla skoða sína kennsluhætti með það að markmiði að efla læsi í sinni grein. Kennarar munu bæði vinna samaninnan greina sem og þvert á greinar. Áhersla verður lögð á það sem nemendur læra í stað þess hvað á að kenna. Nemendur verða aðstoðaðir við að finna námsstíl sinn og að finna hvaða leið þeim hentar best við námið.

Leitað hefur verið til þriggja sérfræðinga sem verða kennurum skólans til aðstoðar. Ingvar Sigurgeirsson mun aðstoða verkefnisstjóra við að halda utan um verkefnið og við endurskoðun kennsluhátta, Guðmundur Engilbertsson mun leiðbeina kennurum um eflingu læsis innan greina. Auk þeirra kemur norskur sérfræðingur um læsi í öllum greinum hingað til lands á vegum Hagaskóla í samvinnu við Samtök áhugafólks um skólaþróun.

 

Nánari upplýsingar