Hagaskóli

Frammistöðumat

Leiðbeiningar fyrir nemendur

Við undirbúning foreldradagsins þann 6. nóvember n.k. þurfa þeir sem koma að skólastarfinu; kennarar, nemendur og foreldrar, að meta stöðu nemendanna í skólanum. Líkt og undanfarin ár er það gert í gegnum fjölskylduvef Mentor samkvæmt leiðbeiningum hér að neðan. Áður en nemendur og foreldrar hefjast handa við matið er nauðsynlegt að lesa yfir það sem hér stendur og undirbúa sig vel. Þannig verður foreldradagurinn gagnlegri fyrir alla.


Hvað er verið að meta?

Matsþættir

Nemendur meta stöðu sína í hverri grein út frá þremur þáttum: Virkni, vinnubrögðum og námsstöðu. Til einföldunar má miða við að nemendur svari eftirfarandi spurningum þegar þeir meta sig.

 • Virkni
  Hversu mikið legg ég mig fram um að fylgjast með kennslu, vinna verkefni sem lögð eru fyrir og fara eftir fyrirmælum kennara?
 • Vinnubrögð
  Hversu mikið vanda ég mig við að halda skipulagi á bókum og blöðum, skila verkefnum samkvæmt fyrirmælum. Hversu mikið legg ég mig fram um að gera vel í greininni?
 • Námsstaða
  Hvernig stend ég í greininni? Er ég á undan eða eftir, eða tekst mér að fylgja yfirferð kennarans og kennsluáætlun eftir?

Matskerfi

Nemendur hafa fjóra valmöguleika þegar þeir meta sig í ofangreindum þáttum: Til fyrirmyndar, Góð framvinda, Þarfnast úrbóta og Þarfnast verulegra úrbóta. Notuð eru tákn fyrir þessa möguleika. Nemendur velja þann möguleika sem þeim finnst lýsa stöðu sinni best.

lsm_nem_1

Umsagnir og spurningar

Nemendur hafa einnig möguleika á því að skrá umsagnir um einstakar greinar. Þeir eru eindregið hvattir til þess að gefa sér tíma til þess og skrá þar t.d. líðan í tímum, styrkleika sína í greininni og hvort námsefnið í greininni veki hjá þeim áhuga. Umsagnahólfið má í raun nýta til að skrá allt það sem nemendur vilja koma til skila við kennara. Að auki eru nemendur beðnir að skrá styrkleika sína og veikleika, markmið og svara nokkrum spurningum.


 

Svona gerum við ...

1. Undirbúningur

Mjög mikilvægt er að undirbúa sig fyrir matið og ígrunda stöðuna í skólanum áður en hafist er handa. Best er að gera það með því að skoða stundatöfluna með foreldrum og ræða þá þætti sem liggja til grundvallar: Virkni, vinnubrögð og námsstöðu. Gott er að skrifa hjá sér athugasemdir og skrá allt sem þið teljið máli skipta í umsögninni um greinina. Gefið ykkur svo góðan tíma til að vinna matið í Mentor.

2. Innskráning

lsm_nem_2Frammistöðumatið fer fram á svæði nemenda á Mentor. Foreldrar geta breytt lykilorði barna sinna í gegnum reitinn Fjölskylduvefur. Þegar komið er inn á fjölskylduvefshlutann má jafnframt sjá valmöguleikann Frammistöðumat vinstra megin á síðunni.

lsm_nem_3

3. Skráning á leiðsagnarmatsblað

 • Nemandinn (sjálfur eða með aðstoð foreldra) skráir sig inn í kerfið með kennitölunni sinni og lykilorði.
 • Smellt er á Frammistöðumat vinstra megin á skjánum þegar búið er að smella á Fjölskylduvefur. Til að skrá á matsblaðið er smellt á merkið .
 • Á fyrsta hluta matsblaðsins er námsframmistaða metin út frá þeim þáttum sem útskýrðir eru á forsíðunni. Smellt er einu sinni í auðan reit til að fá tákn fyrir fyrstu tegund mats, aftur til að fá það næsta og þannig koll af kolli. Umsagnir á síðan að skrá í textahólf þar fyrir aftan.
 • Skráið því næst styrkleika og veikleika ykkar og setjið ykkur markmið í náminu fram að næsta foreldraviðtali.
 • Svarið því næst spurningunum sem koma í kjölfarið með því að smella í auðu reitina þar til viðeigandi táknkemur upp.
 • Munið að smella á Skrá þegar skráningu er lokið.
Nánari upplýsingar veitir Ómar Örn Magnússon aðstoðarskólastjóri - omar@hagaskoli.is