Nám og kennsla

read-515531_1280

ALLIR NÁ ÁRANGRI

Skólastarfið leggi grunn að sjálfstæðri hugsun
nemenda og þjálfi hæfni þeirra til samstarfs við aðra

Í Hagaskóla eru nemendur í blönduðum bekkjum í kjarna námsins en boðið er upp á fjölbreyttar valgreinar í 9. og 10. bekk. Í öllum bóklegum kjarnagreinum er bekkurinn saman í tímum. Markmiðum kennslunnar í hverri námsgrein er lýst í skólanámskrá sem birt er á vef skólans og er á hverjum tíma lögð áhersla á að þau séu í fullu samræmi við gildandi Aðalnámskrá grunnskóla. Yfirferð námsefnis er kynnt í kennsluáætlunum sem gerðar eru fyrir hverja önn. Þar er einnig gert ráð fyrir að kennarar lýsi þeim kennsluaðferðum sem notaðar verða og þeim verkefnum sem námsmat annarinnar byggist á. Síðustu árin hefur verið lögð áhersla á að auka fjölbreytni í kennsluháttum með það að markmiði að mæta hverjum og einum nemanda þar sem hann er staddur í námi  og nýta hæfileika hvers og eins til þess að hann taki framförum í hverri námsgrein. Þeir nemendur sem hafa sértæka námsörðugleika og geta ekki fylgt yfirferð bekkjarins eiga kost á enn sértækari þjónustu í námsveri skólans. Í íþróttum eru tveir bekkir í sama árgangi saman en í valgreinum gilda ákveðnar valgreinatöflur og valgreinahópar. Í list- og verkgreinum er bekkjum skipt til helminga.

Í Hagaskóla er mikil áhersla lögð á lestur og lesskilning enda er læsi lykill að öllu námi, velferð barna og framförum. Flestir nemendur á unglingastigi hafa náð tökum á tækninni að lesa en margir eiga í erfiðleikum með lesskilning. Lesskilningur er ekki aðeins mikilvægur til að ná árangri í námi heldur er hann ein af frumforsendum þess að geta bjargað sér og náð árangri í samfélaginu á flestum sviðum daglegs lífs að námi loknu.

Í Aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 2011 segir að stefnt skuli að því að hver einstaklingur hafi hæfni til að skynja og skilja umhverfi sitt á gagnrýninn hátt og taka þátt í að móta það. Enn fremur segir að í læsi felist að búa yfir þekkingu og leikni til að skynja, skilja, túlka, gagnrýna og miðla texta í víðum skilningi (ritmáli, myndmáli, talmáli, tölum og öðrum kerfum tákna) til að mæta kröfum samfélags og einstaklings. Þótt þeim verkfærum, sem nota má í skólastarfi hafi fjölgað, dregur það þó engan veginn úr mikilvægi ritunar og lesturs í hefðbundnum skilningi. Sem fyrr skiptir það miklu máli að börn nái tökum á tiltekinni lestrar- og ritunartækni en athyglin beinist nú jafnframt að allri þeirri tækni sem nemendur geta notað í samskiptum, námi og merkingarsköpun – í þágu sjálfra sín og samfélagsins. Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á. (Aðalnámskrá grunnskóla- almennur hluti, 2011)