Hversu mikið er meira?

Í upphafi skólaársins lagði ég fyrir nemendur í 8. bekk verkefni þar sem þeir áttu að velta fyrir sér eigin læsi, skilgreina hugtakið og síðast en ekki síst að smíða sér kenningu um það hvernig þeir gætu eflt eigið læsi. Ég tók því næst þessar kenningar og bjó til úr þeim orðaský þar sem stærð orðanna er í réttu hlutfalli við það hversu oft þau koma fyrir. Það er skemmst frá því að segja að orðin „lesa“ og „meira“ voru lang mest áberandi.

Til þess að komast að því hvernig hægt væri að hrinda þessum kenningum barnanna í framkvæmd fannst mér nauðsynlegt að komast að því hversu mikið nemendur lesa í dag, þannig að hægt sé að skilgreina „meira“ og setja nemendum raunhæf markmið í að „lesa meira“. Án raunhæfra tölulegra markmið verður erfitt að fullyrða um árangur.

Ég útbjó því mjög einfaldar lestrardagbækur þar sem nemendur áttu að skrá hvaða bækur þeir væru að lesa, hversu margar blaðsíður þeir læsu á dag og hversu löngum tíma væri varið í lestur utan þess sem þeir lesa í skólanum. Niðurstöðurnar eru í skífuritinu hér að neðan.

lestur_mynd2

Það má segja að staðan sé býsna athyglisverð. Aðeins 38% nemenda lesa bækur á íslensku utan skólans og aðeins fjórðungur nemenda les meira en 8-10 mínútur á dag af samfelldum texta á bók. Samkvæmt rannsókn Þorbjörns Broddasonar, Kjartans Ólafssonar og Sólveigar Margrétar Karlsdóttur frá 2009 höfðu 28% barna á aldrinum 10-15 ára ekki lesið neina bók síðustu 30 daga þegar rannsóknin var framkvæmd árið 2009 meðan sambærilegar tölur frá árinu 1979 gefa til kynna að hlutfallið þá hafi verið 11%. Á þessu þrjátíu ára tímabili fækkaði þeim sem lásu fleiri en 10 bækur á mánaðartímabili úr 26% í 4%. Því er ljóst að bóklestur barna hefur dregist mikið saman.

Ef miðað er við óformlegu könnunina mína á lestri nemenda í 8. bekk má álykta að 62% nemenda myndu ekki lesa bækur ef ekki væri fyrir 60 lestrarmínúturnar á viku sem eru í skólanum. Þessir nemendur gætu farið í gegnum heilu vikurnar, mánuðina og skólaárin án þess að lesa nokkurn tíma annað en það sem skólinn leggur fyrir. Þegar svo kemur að því að þessir nemendur fari í PISA próf og þeir þurfa að takast á við texta og orðaforða sem ekki er að finna í námsefni skólans hlýtur maður að velta því fyrir sér hvernig þeim reiðir af þegar þeir takast á við framandi texta. Rannsókn Freyju Birgisdóttur sem kynnt var á Menntakviku 2015 sýnir að ánægja af lestri og orðaforði er þeir tveir þættir sem hafa mest áhrif á læsi og lesskilning. Nýleg finnsk rannsókn sýnir að fjórfaldur munur er á orðaforða barna að loknu tíu ára grunnskólanámi eftir því hvort þau lesa aðeins skólabækurnar eða skólabækurnar og auk þess sér til ánægju. Þar kemur fram að orðaforði barna sem fara í gegnum grunnskólann án þess að lesa sér til ánægju er um 15.000 orð en um 60.000 orð meðal þeirra sem lesa sér reglulega til ánægju auk þess að lesa námsbækurnar. Góðu fréttirnar eru þær að hvergi mælist ánægja af lestri á unglingastigi eins mikil og í Hagaskóla og er marktækur munur á niðurstöðum í Hagaskóla og meðaltals á landsvísu. Ánægja af lestri er mæld í Skólapúlsinum mánaðarlega. Hins vegar er augljóst að betur má ef duga skal því einungis 15% drengja í 8. bekk í Hagaskóla sem tóku þátt í óformlegu könnuninni minni lesa í meira en 60 mínútur á viku. Það þarf þess vegna ekki að vera neitt sérstakt undrunarefni að jafn stórt hlutfall drengja geti ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla. Þeir lesa einfaldlega of lítið heima við.

Vitundarvakning

Þjóðarátak um læsi er svo sannarlega þörf áminning, og full ástæða til þess að velta stöðu læsis rækilega fyrir sér. Mín skoðun er sú að við þurfum meðal annars að horfa út fyrir skólann og ýta undir lestur heima við. Skólinn gerir sitt besta og hefur örugglega mikið gagn af aukinni ráðgjöf og stuðningi Menntamálastofnunar við að bæta lestrarkennslu, en það er bara ekki nóg.

Í Hagaskóla er nú þegar búið að helga 60 mínútur af námstíma barnanna í þetta  verkefni, en við eigum ekki gott með að auka við þann tíma nema með því að skera af öðrum námsgreinum og óskum því eftir fulltingi foreldra við að bæta læsi unglinga í Vesturbænum. Takið frá tíma í lestur á heimilinu. Haldið bókum að börnunum, hjálpið þeim að velja bækur, látið þau segja ykkur stundum frá því sem þau eru að lesa, verið með þeim á meðan þið lesið og búið til notalegt umhverfi utan um lesturinn á heimilinu. Hafið bækur sýnilegar á heimilinu, gerið ykkur ferð á bókasafnið, skoðið hvenær bókabíllinn er á ferðinni í hverfinu. Jákvætt viðhorf til lestrar skiptir höfuðmáli.

lestur_mynd3

Í skólanum gerum við okkar besta til þess að hvetja börnin, útskýra fyrir þeim af hverju það er mikilvægt að venja sig á það núna að taka u.þ.b. 15 mínútur á dag í að lesa, en þær tölur sem þessi litla óformlega könnun mín sýnir okkur er að við verðum öll að hjálpast að til þess að börnin geti náð markmiði sínu – að lesa meira.


Tryggvi Már Gunnarsson – íslenskukennari í Hagaskóla
29. desember, 2015

2Svör áHversu mikið er meira?"

 1. Sylvía Guðmundsdóttir skrifar:

  Kærar þakkir fyrir prýðilega samantekt, hvatningu og áskorun til heimilanna um meiri lestur heima fyrir svo og þátttöku foreldra í vali bóka með börnunum og samræðum um það efni sem verið er að lesa. Aldrei er gert of mikið af því að minna á þessi atriði. Velti fyrir mér hvort eitthvað gæti hjálpað foreldrum ef tekinn væri saman listi yfir bækur sem aldurshópurinn sjálfur mælir með eða réttara sagt finnst skemmtilegar og settur á vefsíðuna. (Slíkan lista þyrfti að sjálfsögðu að endurnýja reglulega). Þá fyndist mér æskilegt að hafa ekki teiknimyndasögur með þótt þær eigi allt gott skilið … 🙂 heldur leggja áherslu á bækur þar sem reynir á lestur samfellds texta. Sjálf hef ég nokkuð góða yfirsýn yfir barna- og unglingabækur. Samt lendi ég iðulega í vandræðum með að finna efni sem hentar ömmustelpunum mínum eða sem þær “nenna” að lesa. En þessi orð eru nú fyrst og fremst skrifuð til að þakka fyrir pistilinn. Með kveðju,
  Sylvía Guðmundsdóttir (amma)

 2. Takk fyrir góð skilaboð um læsi barnanna okkar, menntun og möguleika seinna meir til að beita menntun í líf og starfi. Því orðaforði hlýtur að teljast einn kjarni menntunar. Skrifa hér skilaboð sem ég sendi Ómari í dag í kjölfarið á að hann vakti athygli á grein þinni hér:
  Sæll Ómar,

  ,,Sem menntastofnun hljótið þið að vera í spurn yfir þessari þróun minnkandi læsis og ánægju af lestri.
  Strákarnir mínir báðir hættu alfarið ánægjulestri eftir að þeir eignuðust sitt fyrsta raftæki fyrir fimm árum. Þetta er mér áhyggjuefni. Og ég er þungt hugsi yfir ýmsu sem ég tek eftir á mínu heimili hvað varðar netheima og menntun í því samhengi. Börnin mín eru einskonar tilraunadýr nýrra tíma (…)
  Mér finnst mikilvægt að skólinn tjái afstöðu sína afgerandi varðandi raftæki og netheima á skólatíma einmitt vegna þess að þessi þróun minnkandi læsis virðist ganga samhliða aukinni notkun netnotkunar.
  Persónulega vil ég að símar verði bannaðir í skólanum og þeir skildir eftir heima. Skólinn sem menntastofnun ætti að mínu mati að skýla börnum frá notkun netsins á skólatíma og hvetja til samskipta barnanna í frímínútum og lesturs í skólanum.”
  Mér finnst allavega tölurnar sýna að það þarf að fara kröftug umræða fram um þennan nýja veruleika og setja einhverskonar samhengi í hlutina. Og byrja einhversstaðar.