Hvað þýðir A B C D?

Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla er gert ráð fyrir töluverðum breytingum á námsmati. Mesta breytingin er væntanlega sú hvað skólinn metur og hvernig í takt við áherslu námskrárinnar á hæfni nemenda. Í námskránni er fjallað um tilgang námsmats, fjölbreyttar námsmatsaðferðir, viðmið og samræmingu. Nemendur skulu metnir með bókstöfunum A, B, C og D. Mikil orka hefur farið í umræður um matskvarðann en minni í inntak námsmatsins. Það er ekki gott en skiljanlegt. Frumforsenda þess að geta farið að hugsa námsmatið er sameiginlegur skilningur á matskvarðanum. Frá því að ný aðalnámskrá kom út hafa heyrst raddir um að þessi matskvarði sé í raun gamall, að skemmtilegt sé að sjá hvernig allt fer í hringi og það sem var ómögulegt fyrir tugum ára sé nú kynnt sem nýjasta nýtt. Einnig hafa margir hnotið um þá ákvörðun að A sé betra en fullnægjandi en þetta skiptir þó engu máli. Mikilvægast er að til sé sameiginlegur skilningur og að fram fari umræða um þann skilning en ekki bara tæknilega útfærslu.

Í aðalnámskrá grunnskóla á blaðsíðu er 56 fjallað um kvarðan og eftirfarandi viðmið gefin upp:

A
Námssvið
Framúrskarandi hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

Lykilhæfni
Framúrskarandi hæfni með hliðsjón af viðmiðum um lykilhæfni.

B
Námssvið
Góð hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

Lykilhæfni
Góð hæfni með hliðsjón af viðmiðum um lykilhæfni.

C
Námssvið
Sæmileg hæfni og frammistaða í námi með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

Lykilhæfni
Sæmileg hæfni með hliðsjón af viðmiðum um lykilhæfni.

D
Námssvið
Hæfni og frammistöðu í námi ábótavant með hliðsjón af hæfniviðmiðum námsgreinar eða námssviðs.

Lykilhæfni
Hæfni með hliðsjón af viðmiðum um lykilhæfni ábótavant.

Í grófum dráttum er kvarðanum sem sagt skipt upp í: framúrskarandi hæfni – góð hæfni – sæmileg hæfni – hæfni ábótavant. Þessi skipting endurspeglast svo víða í matsviðmiðum við lok grunnskóla. En er þessi skilgreining á kvarðanum nógu góð og gefur kvarðinn http://male-viagra.com/ á þennan hátt nógu góðar upplýsingar? Til að svo megi verða þurfum við að setja skilgreiningarnar í samhengi og sættast á skilning á þeim. Þá þurfum við að svara einföldum spurningum eins og:

  • Ætlum við að nota þennan kvarða til að raða nemendum í geturöð þannig að neðstu 25% fái D, næstu 25% C og svo framvegis?
  • Er gert ráð fyrir ákveðinni dreifingu bókstafa?
  • Hvað er sæmileg hæfni í stærðfræði í 8. bekk og hver er munurinn á góðri hæfni og sæmilegri?
  •  … og miklu fleiri spurningum …

Þetta þarf ekki að vera svona flókið. Gerum ráð fyrir að skólum lánist að útfæra námshæfniviðmið í samræmi við nýja aðalnámskrá. Verkefni þeirra er þá að meta hvort nemendur nái þessum viðmiðum. Þannig má hugsa sér að kvarðinn sé aðeins: já – nei og vonandi ná sem flestir nemendur já. Hins vegar eru kostir við að hafa kvarðann örlítið fínriðnari þannig að matið gefi frekari upplýsingar. Heppilegt er að nálgast það á eftirfarandi hátt:

B
Nemandi hefur náð þeim markmiðum sem til grundvallar lágu og getur án vandræða hafið nám á næsta þrepi.

C
Nemandi hefur náð nokkuð góðum tökum á þeim markmiðum sem til grundvallar lágu og getur hafið nám á næsta þrepi með nokkurri fyrirhöfn og/eða aðstoð.

D
Nemandi hefur ekki náð tökum á þeim markmiðum sem til grundvallar lágu og mun ekki gagnast að hefja nám á næsta þrepi.

A
Nemandi hefur sýnt framúrskarandi hæfni í vinnu að þeim markmiðum sem til grundvallar lágu þannig að hann mun ekki fá nægar áskoranir á næsta þrepi.

Þrep er fyrst og fremst notað í nýrri aðalnámskrá í samheingi hæfniþrepa framhaldsskólans en hugsunin hér er næsta verkefni/skólaár/skólastig eftir því hvenær matið fer fram.

Með þessum hætti fá nemendur og foreldrar upplýsingar sem hafa merkingu um námsstöðu hverju sinni. Ef nemendi fær B eða A veit hann að hann hefur náð þeim markmiðum sem fyrir lágu.

Það hlýtur að vera markmið hvers skóla að sem flestir nemendur nái þeim markmiðum sem til grundvallar liggja og falli þannig í B eða A hópinn. Óskandi væri að 100% nemenda næðu þeim markmiðum sem fyrir þá eru lögð en raunin er kannski að það séu um 60-85%. Flokkunin hér fyrir ofan gerir alls ekki ráð fyrir að nemendur dreifist hlutfallslega á einhvern hátt á bókstafina auk þess sem gert er ráð fyrir að það geti verið munur á dreifingu milli staða, námsgreina, ára o.sv.frv.

Gerum ráð fyrir því að þessi hugsun hafi legið að baki við einkunnagjöf í samræmdu könnunarprófi í stærðfræði í 10. bekk haustið 2013. Þá kemur eftirfarandi dreifing út í grófum dráttum:

 


samr_land13

 

samr_hag13


Ef við erum sammála um að B þýði að nemandi hafi náð nógu góðum tökum á þeim markmiðum sem fyrir hann voru lögð til að geta haldið áfram á næsta þrep/ár/skólastig segja þessar upplýsingar okkur að 78% nemenda í Hagaskóla geta farið á næsta þrep án vandræða en 60% nemenda á landsvísu. Jafnframt sjáum við að 8% nemenda í Hagaskóla þurfa sérstaka aðstoð í námi og 21% meira krefjandi viðfangsefni.

19. janúar, 2014

1Svör áHvað þýðir A B C D?"

  1. Haukur Arason skrifar:

    Kvarðinn A,B,C,D er svo grófur að hann gefur hvorki nemendum né foreldrum nægjanlegar upplýsingar um námslega stöðu nemanda. Það að nemandi fái B segir nánast ekkert um stöðu nemandans í viðkomandi grein. Ég vona að Hagaskóli haldi áfram að nota fyrri námskvarða samhliða þessum nýja. (Reyndar hélt ég að ráðuneytið hefði frestað upptöku þessa nýja og lakari kvarða og ætlað að endurskoða málið.)