Skip to content

Ályktun frá réttindaráði Hagaskóla

Skjáskot af umfjöllun Stundarinnar 8.-21. mars 2019.

Réttindaráð Hagaskóla mótmælir harðlega fyrirætlunum stjórnvalda um að vísa Zainab Safari og fjölskyldu hennar úr landi

Réttindaráð Hagaskóla hefur sent frá sér ályktun þar sem fyrirhugaðri brottvísun Zainab Safari og fjölskyldu hennar úr landi er harðlega mótmælt. Zainab er 14 ára nemandi í Hagaskóla sem hefur þurft að ganga í gegnum hluti sem enginn ætti að þurfa að ganga í gegnum. Hún finnur til öryggis á Íslandi, er í góðum bekk í Hagaskóla og líður vel með nemendum og starfsmönnum sem styðja við bak hennar.

Fjallað var um mál Zainab og fjölskyldu hennar í Stundinni sem kom út um síðustu helgi en þar lýsir fjölskyldan hrakningum sínum og því gríðarlega áfalli sem hún varð fyrir þegar þau fengu þær fréttir að til stæði að vísa frá Íslandi og aftur til Grikklands.

Réttindaráð fer fram á að stjórnvöld endurskoði ákvörðun sína með hliðsjón af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið lögleiddur á Íslandi en í 3. grein sáttmálans segir að „allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.“

Mynd með frétt er skjáskot af umfjöllun Stundarinnar 8.-21. mars 2019.

Ályktun réttindaráðs í heild sinni á PDF formi